Mikilvægi þess að börnin fari oft í sund og jafnvel stundi sund í tómstundarstarfi.

22.11.2021

Hér eru nokkur atriði sem foreldrar ættu að hafa i huga varðandi sundkennslu og mikilvægi þess að skrá barnið í sundhópa/námskeið hjá félögum.

UNDIRBÚNINGUR FYRIR LÍFIÐ
Börnin hefja skólagöngu sína á milli 5 og 6 ára aldurs. Þessi fyrstu 10 ár í skólagöngu barnsins er krafa að börnin fái 2 tíma í íþróttum á viku og 1 tíma í sundkennslu. Þessu er svo mismunandi háttað eftir skólum og bæjarfélögum. Því miður er það þannig að oft koma börnin nokkuð illa synd eftir skólagöngu enda er lítill tími fyrir kennarana til að virkilega kenna börnunum. 40mínútna tími verður í mörgum tilfellum aldrei nema rétt um 15 – 20 mínútna tími sökum þess að börnum er hleypt seint úr tíma, það þarf að sturta sig og koma sér út og svo þarf að vera komin í næsta tíma á réttum tíma þannig að kennari þarf að hleypa upp úr lauginni 10 – 15 mínútum snemma. Einnig eru margir skólar með lotukerfi og þá fara börnin í sund 2 – 3 sinnum í viku í 6 vikur og svo er það bara búið með sundið yfir skólaárið. Þegar því er ekki haldið við þá byrjar barnið oft á tíðum á sama stað að ári. Með því að skrá barnið þitt í sund hjá félagi þá tryggir þú því örugga kennslu, hreyfingu sem fylgir því allt lífið enda hægt að synda alla ævi. Öryggi í vatni þannig að þægilegra er til dæmis að fara í sumarferðir erlendis. Ef barn/fullorðin dettur útfyrir á bát/skipi eru meiri líkur á að geta bjargað sér í sjónum ef sundkunnátta er í lagi.

HREYFING FYRIR ÆVINA
Sund er íþrótt sem hægt er að stunda alla ævi. Hreyfing í vatni er mjúk hreyfing og hreyfing þar sem líkamanum líður einna best. Að stunda sund til heilsubótar hefur áhrif á allan líkamann enda verið að vinna með nánast alla vöðva líkamans. Þetta er fullkomin heilsurækt þar sem ekki þarf á dýrum búnaði að halda og þú getur brennt um 500kcal á klukkustundar rólegu sundi og auðvitað hægt að bæta í með meiri ákefð.

EYKUR LIÐLEIKA
Við erum mikið á hreyfingu og börnin þá sérstaklega, mikið um hlaup, hopp og skopp og álag á bein og liðamót. Sund er mjúk hreyfing og í laugum landsins þar sem hitastig er 27 – 30 gráður þá ná vöðvarnir góðri slökun og hjálpar sundið til við að teygja á mikilvægum vöðvum líkamans.

BÆTIR LÍKAMSSTÖÐUNA
Við vitum það öll að börnin rétt eins og við hin sitjum of mikið og svo oft á tíðum eru ófáir tímar sem fara í það að vera fyrir framan tölvuna eða vera í símanum. Eins og áður segir er sund mjúk hreyfing sem styrkir liðamót og réttir úr hryggjarsúlunni og er einhver besta hreyfing til að fyrirbyggja bakvandamál. „hversu oft sagði mamma þín þér „réttu úr þér“ í æsku“

ÖRYGGISATRIÐI
Börnin okkar ættu samkvæmt öllu að vera að fá 1 sundtíma á viku í gegnum alla grunnskólagöngu sína. Þetta ætti að vera frábært sundnámskeið fyrir börnin til að auka öryggisatriði. Bara það að barnið kunni algjör grunnatriði, svo sem að fljóta, slaka á og synda til að bjarga eigin lífi eða jafnvel yngra systkyni ætti að vera næg hvatning fyrir foreldra að kíkja á það „er barnið mitt að fá þá sundkennslu sem það á að fá í sínum skóla“ Það að læra sund getur bjargað mannslífi… þínu eða einhvers annars.

Ég hvet þig því að huga að heilsunni hjá þér og barninu þínu.

Höfundur: Guðmundur Hafþórsson

Greinin er birt með leyfi höfundar