Sundlaugin á Þingeyri er líka félagsmiðstöð
12.11.2021Nafn mitt er Sigmundur Fríðar Þórðarson og starfa ég við það að aka grunnskólanemum til og frá Grunnskóla þingeyrar. Ég starfa líka með börnum við íþróttir og þar sem ég er húsasmíðameistari hef ég líka tök á að starfa eitthvað við mitt fag.
Mynd. Sigmundur Þórðarson og Þorbjörg Gunnarsdóttir
Mynd: Sundlaugin á Þingeyri
Ef ég væri ekki að mæta á þessum tíma í sund væri ég klárlega mun lélegri til vinnu þar sem ég er nú ekkert unglamb lengur. Ef ekki væri sundlaug hér gæti ég ekki ímyndað mér hvernig lífið væri hérna. Hún og í raun íþróttamiðstöðin er mikið notuð og mjög mikilvæg samfélaginu. Þetta er okkar aðal félagsmiðstöð fyrir fólk á öllum aldri. Alltaf líf og fjör.
Mynd: Börn úr Grunnskólanum í fatasundi
Hér er líka mjög gott tjaldsvæði og það er líka mjög vel nýtt og segir sig sjálft að ferðamenn nýta sundlaugina þar af leiðandi líka vel. Opnunartími er breytilegur á sumrin og veturna og þá aðallega vegna notkunar Grunnskólabarna. Á sumrin er opið alla daga frá kl: 8.00 á morgnana til 21.00 á kvöldin. og frá kl: 10.00 - 18.00 um helgar. Opnunartími fyrir almenning er styttri á veturnar og þá aðallega vegna Grunnskóla þingeyrar þ.e. notkunar barna.
Þörf á sundkennslu fyrir fullorðna
Grunnskólinn er með sundkennslu fyrir alla sína nemendur en það hefur skort á kennslu fyrir fullorðna.Þörfin er brýn á að gera eitthvað í þeim málum, sunderobikk eða eitthvað í þá áttina eða bara almenna sundkennslu.Það er ekkert vafamál hversu heilsusamlegt það er að stunda sund og eins og einn hress sem mætir reglulega segir "þá hefur þetta enga smá þýðingu að þrífa sig reglulega, annars væri hann í skítlegum málum".
Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þetta frábæra hvatningarátak ykkar og vona að áframhald verði á því. Það er enginn vafi á því að það hefur áhrif til góðs. Fleiri eru að synda og mikill metnaður að synda fleiri ferðir. Þetta eykst dag frá degi og svo komið að bið er eftir því að geta stungið sér í laugina og hafið sund. Það geta jú ekki allir farið ofan í í einu. Þeir sem mættu bara í heitu pottana til að spjalla eru líka farnir að synda einhverjar ferðir og ég er ekki í vafa um að nýir munu mæta og taka þátt þegar fréttist hversu gaman þetta er. Þá er tilgangnum náð að ég tali nú ekki um hversu heilsusamlegt þetta er. Aðstaðan er frábær og maður er manns gaman. Hér er alltaf heitt á koönnunni og gott að fá sér smá kaffisopa og spjalla. Þjónustan í sundlauginn er til fyrirmyndar og ber að þakka öllu því frábæra starfsfólki sem þar vinnur.
Mynd: Kort sem sýnir hversu langt hefur verið synt út fjörðinn
Yfir 5 þúsund metrar syntir
Það má geta þess til gamans að í dag, (11. nóvember) er búið að synda yfir 5 þúsund metra í sundlauginni hérna frá því að átakið byrjaði og ég lofa miklu hærri tölur þegar átakinu lýkur. Það er verið að setja það upp á kort hversu langt er synt í hverri viku og spennandi að fylgjast með því. Ég vil geta þess hér að það er dásamlegt hversu margar sundlaugar við Íslendingar eigum og aðstaðan er alltaf að batna. Menn gera sér jafnvel ferð á milli staða til að berja aðstöðuna augum, sums staðar er aðstaðan alveg stórkostleg. Þetta eru algjörar heilsulindir og ég hvet menn til að mæta í sund og hreyfa sig.
Takk fyrir stórkostlegt átak og takk fyrir þessa hvatningu.
LIFIÐ HEIL!