Styrkir líkamann og eflir andann

04.11.2021

Hildur Karen hefur starfað með íþróttahreyfingunni í langan tíma. Hún er búsett á Akranesi og kennir við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Hildur Karen hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri ÍA og framkvæmdastjóri Sundsambands Íslands. Hún segir alla hreyfingu afar mikilvæga fyrir allan aldur. Sjálf hefur hún stundað sund frá sjö ára aldri.

„Sundiðkun mín hófst með busli í lauginni í Reykjarfirði á Ströndum. Ég æfði síðan sund með Sundfélagi UMFB í Bolungavík til 16 ára aldurs. Frá þeim tíma hef ég synt mér til heilsubótar og stundum stungið mér til sunds á garpamótum, meðal annars með móður minni á Heims- og Evrópumóti garpa,“ segir hún. „Síðastliðin 30 ár hef ég svo verið viðloðandi sund sem foreldri, þjálfari, ungbarnasundkennari og um þessar mundir með Flotnámskeið á Akranesi, meðal annars sem valfag við Fjölbrautaskóla Vesturlands.“

Frábær hreyfing
Hildur segir að hreyfing í vatni sé öðruvísi en mörg önnur, til dæmis sé álag á liði minna en við marga aðra iðkun. „Mörgum hættir til að gleyma sundi sem góðri hreyfingu en það er í raun frábær hreyfing fyrir allan líkamann. Fólk þarf ekki að fara daglega í sund til að það hafi heilsubætandi áhrif en því oftar sem það mætir því betri áhrif hefur það á heilsuna. Hvers konar hreyfing í að minnsta kosti 30 mínútur á dag hefur heilsubætandi áhrif,“ upplýsir hún. „Sund reynir á nánast alla vöðva líkamans, krefst samhæfingar, styrkir öndun og fer vel með liði og vöðva. Í sundlauginni stjórnar hver og einn ferðinni sjálfur.“

Þegar Hildur Karen er spurð hvort sundið eitt og sér sé nægileg hreyfing eða hvort fólk ætti að stunda aðra líkamsrækt að auki svarar hún: „Við vitum öll hversu mikilvæg hreyfing er fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði fólks og má segja að sund sé nægjanleg hreyfing til að halda sér í formi og bæta úthald en sambland sunds og annarra æfinga gefur enn betri árangur, má þar nefna göngur og styrktarþjálfun. Því má heldur ekki gleyma að sund er hægt að iðka í öllum veðrum og á öllum árstíma í okkar fjölmörgu sundlaugum sem opnar eru almenningi frá morgni til kvölds.

Þá má alveg geta þess að þegar maður er í sundi fær maður kærkomið frí frá stöðugu áreiti símans og samfélagsmiðla. Hvíld frá þessu áreiti skapar vellíðan og gott er að hreinsa hugann á meðan maður syndir. Það er hægt að fá kraft úr vatninu,“ segir hún.

Sundlaugar um allt land
Hildur segir að það sé alltaf meira gaman að synda með öðrum og að víða séu starfandi hópar í sundlaugum landsins, til dæmis garpasund. Þannig hópar efla félagsandann. „Síðan er það nú þannig að þegar fólk fer að stunda sund þá myndast oft hópar sem synda saman á ákveðnum tímum, styrkja böndin og næra hugann í heita pottinum að loknum sundsprettinum. Það eru fáar íþróttir sem reyna jafn mikið á alla vöðva líkamans og sundið en um leið er álagið ekki mikið því maður er svo léttur í vatninu,“ segir hún.

Hildur Karen bendir á að sundmenning hér á landi sé einstök. „Það sést á þeim mikla fjölda sundlauga sem eru staðsettar um allt land. Að öllum líkindum erum við duglegri en flestar þjóðir að heimsækja sundlaugar,“ segir hún.

Ódýrt fjölskyldusport
Hildur Karen bendir einnig á að sund sé ódýrt sport. „Ef keypt er árskort í sund kostar dagurinn um það bil 100 krónur. Innifalið í því er aðgangur að sundlaugum hvers sveitarfélags. Þá eru oft veittir góðir afslættir til aldraðra, öryrkja og yngri sundmanna. Búnaður sem þarf til að iðka sund er einfaldur, sundföt og sundgleraugu eru lágmarksbúnaður en einnig er vinsælt að nota blöðkur,“ segir hún.

„Sund er frábært fjölskyldusport. Á ferðalögum er hægt að koma við í sundlaugum og skola af sér, synda stuttan sprett, leika sér og fara í pottinn. Það er líka þannig að í sundlauginni geta allir í fjölskyldunni fundið eitthvað við sitt hæfi eða synt á þeim hraða sem hentar hverjum og einum,“ segir Hildur Karen og bætir við að hún viti um fólk sem mæti í laugina á sama tíma á hverjum degi og hafi gert áratugum saman. „Þessu fólki finnst dagurinn ónýtur ef ekki er farið í laugina. Í Covid-lokunum heyrðum við af fólki sem fannst einna erfiðast í ástandinu að komast ekki í laugina.“

Sundátak fyrir alla
Hildur Karen segist finna mikinn áhuga hjá fólki að skrá sig í sundátakið. „Fólk hefur verið að skrá sig á fullu og setja sér markmið en hægt er að skrá sig alveg fram á síðasta dag átaksins,“ bendir hún á. „Þetta er mjög þarft og gott framtak og gott tækifæri fyrir fólk að koma sér af stað í góða hreyfingu,“ segir hún og hvetur sem flesta til að skrá sig og vera með í átakinu. „Nú þegar eru sundmenn komnir hring í kringum landið og verður spennandi að sjá hversu margir hringir verða skráðir í lok mánaðarins.“

Ef fólk vill taka þátt og setja sér markmið er hægt að skrá sig á syndum.is, þar eru auk þess ýmsar upplýsingar til dæmis um hvernig maður setji sér sundmarkmið

Serbl_Myndatexti:FRÉTTABLAÐIÐ/8EYÞÓR

Grein frá Fréttablaðinu 4. nóvember 2021