Landsátakið Syndum var sett í Laugardalslauginni
02.11.2021
Syndum, landsátak í sundi hófst með formlegum hætti í hádeginu í dag í Laugardalslaug. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til að hreyfa sig með því að synda saman hringinn í kringum Ísland. Landsmenn skrá sig og metrana sem þeir synda á forsíðu www.syndum.is Þar verður einnig hægt að sjá hversu marga hringi landsmenn hafa synt.
Verum öll með!
Í Laugardalslaug í dag fluttu ávörp, Andri Stefánsson, starfandi framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Björn Sigurðsson, formaður Sundsambands Íslands. Andri hvatti viðstadda til að nota sund sem daglega hreyfingu og minnti á að sund er frábær hreyfing og fjölskyldu samvera.
Björn þakkaði ÍSÍ fyrir að koma þessu verkefni af stað og benti á að sund hefur mikla sérstöðu á Íslandi og skipar stóran sess í huga landsmanna. Sund er góð hreyfing fyrir alla. Björn benti jafnframt á öflugt starf sundfélaga á Íslandi og að nú væru þrír fulltrúar Íslands á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25m laug sem hófst í Kazan í morgun.
Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is og fara í „Mínar skráningar“. Einfalt er að velja sér notendanafn og lykilorð og skrá síðan sínar sundvegalengdir. Þeir sem eiga notendanafn í Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn. Þeir sem skrá sig og taka þátt geta átt von á að verða dregnir út og vinna veglega vinninga. Á heimasíðu Syndum, www.syndum.is, eru allar nánari upplýsingar um verkefnið auk ýmiss annars fróðleiks og upplýsinga um sundlaugar landsins.