Sundtækni - Atriði sem betra er að hafa í lagi
29.10.2021
Ef þig langar til að sundið verði á einhvern hátt betra hjá þér gætirðu haft hag af því að kíkja á tækniatriðin sem birtast hér.
Við það að breyta einu atriði syndir þú kannski hraðar eða stjórnar því betur hversu mikið þú þreytist.
Með betri tækni þá er upplifunin almennt sú að það verði svo miklu skemmtilegra og árangursríkara að synda sér til heilsubóta.
Öndunin
Þegar þú syndir áttu alltaf að anda að þér með munninum þegar höfuðið kemur upp úr vatninu. Svo andarðu frá þér í kafi (gildir ekki um baksund).
Þegar þú andar frá þér í kafi þá máttu anda frá þér með munni eða nefi eða bæði munni og nefi í einu.
Ef þú færð pirring í nefið þegar þú syndir getur verið gott að anda frá í kafi með nefi!
Algeng Mistök í Öndunarferlinu
Engin Fráöndun í kafi
Það eru algeng mistök að anda frá sér þegar höfuð kemur upp úr vatninu í stað þess að anda frá sér í kafi!
Ef þú notar þann tíma sem höfuð er upp úr vatninu bæði í fráöndun og innöndun eru lýkur á að þú fáir ekki nóg súrefni. Því þú styttir þann tíma sem þú hefur í innöndun með því að nota hann líka í fráöndun.
Ef þú á hinn bóginn andar frá þér í kafi þá hefurðu allan tímann sem höfuð er upp úr vatninu fyrir innöndun og átt þá hæglega að geta fyllt lungun af súrefni.
Að synda á hálfum tanki
Ef þú fyllir lungun af súrefni og andar síðan helmingnum frá þér, þá hefurðu ekki rúm í lungunum fyrir meira en hálfan tank af súrefni.
Þú þreytist miklu meira ef þú ert að synda á hálfum tanki í stað þess að synda á heilum tanki af súrefni. Settu athyglina í innöndun og fráöndun því það er ekki ósennilegt að þetta sé atriði sem megi laga.
Einbeittu þér að því að anda frá í kafi og klára fráöndunina alveg til að geta fyllt lungun af nýju súrefni.
Fylltu lungun í innöndun og tæmdu þau svo í kafi með fráöndun svo þú getir unnið á fullum tanki af súrefni!
Loftbólur
Ef það myndast mikið af loftbólum í sundtakinu þá verður takið veikara og nýtist því ekki sem skyldi. Þú ferð hægar og færð ekki þá þjálfun sem þú ættir að vera að fá.
Ef þú sérð mikið af loftbólum í sundtakinu þá ertu trúlega að gera eitthvað af eftirfarandi:
Þú ferð of hratt með hendina í gegnum vatnið (í hluta taksins eða öllu takinu)
Þú grípur ekki vatnið (þ.e. þú færð ekki átakið í lófann)
þú gefur eftir í fingrunum og færð þá ekki átakið í lófann
Þú ferð skakkt í átakið (þ.e. þú ert að skera vatnið í stað þess að fá átakið í lófann)
Bringusund og Vöðvabólga
Ef þú ert með vöðvabólgu í herðum og öxlum þá getur vöðvabólgan versnað við það að synda, þ.e. ef tæknin er ekki í lagi hjá þér. En þú getur líka unnið á vöðvabólgu og losnað við hana ef þú syndir rétt.
Mjög margir synda bringusund þannig að þeir horfa stöðugt fram á við þannig að spenna myndast í herðum og öxlum en það veldur vöðvabólgu.
Hættu því að horfa hvert þú ert að fara! það er frekar ósennilegt að það sé eitthvað svo spennandi framundan að þú verðir að fylgjast vel með því - þó það geti svo sem komið fyrir!
Ef þú vilt vita nánar um hvaða atriði geta skipt þig máli til að þú syndir betur og hraðar á bringusundi eða vinnir á vöðvabólgunni þá ættirðu að kíkja betur á Bringusundstæknina...
Skriðsund
Ef þú þú þreytist fljótt á skriðsundinu þá er mjög líklegt að þú þurfir að laga tæknina. Það er þó alveg mögulegt að þú sért bara að gera einhverja smávægilega villu (litlar villur geta stundum virst stórar) sem hefur þessar afleiðingar.
Til að ná að synda áreynslulítið skriðsund þurfa ýmis atriði að vera í lagi. Til að mynda þarf:
Innöndun þarf að vera rétt tímasett
Útöndun þarf að vera í kafi
Höfuðstaðan þarf að vera rétt
Legan í vatninu þarf að vera rétt
Fótatökin meiga ekki vera of mörg eða of kröftug
Þetta eru stærstu atriðin sem þurfa að vera í lagi til að þú getir synt áreynslulítið 400 metra eða lengra á skriðsundi. Hér er farið í betur í Skriðsundstæknina...
Settu þér markmið
Ef þú ætlar þér eða ert að synda reglulega og vilt sjá einhvern árangur af því þá getur verið skynsamlegt fyrir þig að setja þér markmið með Lágmörkum.
Þetta er einföld leið til þess að setja sér markmið sem hægt er að fara eftir. Markmið með Lágmörkum minnka lýkurnar á því að markmiðin verði of erfið eins og oft vill verða.
Það er allt of algengt að fólk setur sér markmið sem reynast fljótlega of erfið til að ná, eða fylgja eftir. Ef þú gerir það þá upplifirðu fljótlega hvað allt verður svo erfitt og leiðinlegt að það eru allar líkur á því að þú gefist upp !
Ef þú setur þér Markmið með Lágmörkum tel ég miklar líkur á að þú náir þeim og munir hafa mun meira ánægju af leiðinni að þeim !
Hér sérðu mína útfærslu af því að setja sér Markmið með Lágmörkum...
Greinin er birt með leyfi höfundar, Brynjólfs Björnssonar hjá Syndaselur